Páll Eyjólfsson varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá leiðsögn José Luís González á árunum 1982 - '84 og aftur 1986. Þá var José Luís enn við fulla heilsu, hitti nemendur sína dag hvern og hélt tónleika reglulega, fór m.a. í tónleikaferðir til Japan a.m.k. einu sinni á ári. Hann var einstaklega natinn kennari og óspar á þekkingu sína. Ef hann fór í sumarfrí með fjölskyldunni, mættu áhugasamir nemendur í tíma til hans í sumarbústaðinn. Hann kenndi í einkatímum heima hjá sér, í örlitlu herbergi, þar sem ekki var bannað að reykja og oft boðið uppá rauðvínsglas. Þar var aldrei lokað vegna jólafrís, páska- eða sumarfrís. José Luís lét þess oft getið við nemendur sína að hann hafi verið að ræða í símann við Segovía um hvernig best væri að ná fram hinum eina sanna tón, í viðfangsefnum dagsins. José Luís fékk aðkenningu af hjartaslagi um 1987 og lést í mars 1998, ekki orðinn sjötugur. Við hefðum viljað eiga samtöl við hann í a.m.k. 20 ár enn.
|